Ég er 35 ára gamall, tveggja barna faðir og starfandi sálfræðingur. Ég lauk bakkalárgráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2020 og cand.psych.-gráðu frá Háskólanum í Suður-Danmörku árið 2022. Auk þessa lauk ég 64 ECTS sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2025.
Starfsnám mitt vann ég á Landspítala, annars vegar hjá Þunglyndis- og kvíðateymi og hins vegar á Teigi, dagdeild fíknimeðferðar. Að starfsnámi loknu starfaði ég áfram á Teigi í um þrjú ár. Í dag starfa ég hjá Fangelsismálastofnun ríkisins samhliða því að reka sálfræðistofu að Klapparstíg 25–27.
Ég sérhæfi mig í greiningu og meðferð fíknivanda og áfallastreituröskunar (PTSD), með sérstakri áherslu á samslátt þessara vanda. Í klínísku starfi mínu vinn ég með einstaklinga þar sem áföll og áfallatengd einkenni liggja að baki eða viðhalda áfengis- og vímuefnanotkun, oft sem leið til að forðast eða deyfa áfallatengd einkenni og tilfinningalega vanlíðan, svo sem endurminningar, skömm og sjálfsásökun.
Í starfi mínu leitast ég sérstaklega við að ná til karlmanna sem bera harm sinn í hljóði og eiga oftar en ekki erfitt með að leita sér aðstoðar, án þess þó að meðferðin sé bundin við einn hóp eða kyn.
Meðferðin miðar að því að vinna markvisst með undirliggjandi áfallavanda samhliða fíknivandanum, fremur en að líta á vandann sem aðskilda þætti. Reynsla og rannsóknir sýna að án áfallavinnu eru líkur á bakslögum auknar og erfitt getur reynst að viðhalda varanlegri edrúmennsku.
Ég notast einkum við gagnreyndar meðferðir, þar á meðal hugræna atferlismeðferð (CBT) og hugræna úrvinnslumeðferð (Cognitive Processing Therapy; CPT). Ég hef lokið sérhæfðri þjálfun í CPT, sem er sérstaklega þróuð meðferð við áfallastreituröskun og hefur reynst vel í meðferð einstaklinga með fíknivanda og áfallasögu.